10.10.1961
Sameinað þing: 0. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (GíslJ):

Áður en þingstörf hefjast, vil ég leyfa mér að minnast þeirra manna, sem átt hafa sæti á Alþingi og látizt hafa, frá því er síðasta Alþingi var slitið, en þeir eru Jóhann Þ. Jósefsson fyrrum ráðherra, sem lézt í sjúkrahúsi í Hamborg 15. maí, Gunnar Ólafsson kaupmaður, sem andaðist að heimili sínu í Vestmannaeyjum 26. júní, Angantýr Guðjónsson verkstjóri, sem varð bráðkvaddur í Vestmannaeyjum 6. ágúst, og Ásgeir Sigurðsson skipstjóri, sem varð bráðkvaddur í Stafangri 22. september.

Jóhann Þ. Jósefsson fæddist í Vestmannaeyjum 17. júní 1886 og var því tæplega 75 ára, þegar hann lézt. Foreldrar hans voru Jósef skipstjóri þar Valdason bónda í Gerðakoti undir Eyjafjöllum Ketilssonar og kona hans, Guðrún Þorkelsdóttir í Vestmannaeyjum Einarssonar. Þegar Jóhann var á fyrsta ári, drukknaði faðir hans, og ólst hann upp hjá móður sinni og stjúpföður, sem fórst einnig við sjósókn. Jóhann, sem var á fimmtánda ári, gerðist þá fyrirvinna móður sinnar og réðst skömmu síðar til starfa við verzlun Gísla J. Johnsens í Vestmannaeyjum. Í ársbyrjun 1910 stofnaði hann til verzlunarrekstrar og útgerðar í Vestmannaeyjum í félagi við Gunnar Ólafsson og Pétur Thorsteinsson. Nokkru síðar keyptu þeir Jóhann og Gunnar hlut Péturs í fyrirtækinu, sem dafnaði vel undir ötulli stjórn þeirra. Höfðu þeir félagar þann atvinnurekstur með höndum fram á árið 1955, en dagleg umsjón með rekstrinum hvíldi löngum meir á herðum Gunnars vegna margs konar starfa Jóhanns á öðrum sviðum. Jóhann fluttist búferlum til Reykjavíkur á árinu 1935, gegndi þar ýmsum opinberum störfum og hafði verzlunarrekstur þar um skeið.

Jóhann Þ. Jósefsson vann um langt skeið að landsmálum og margs konar félagsmálum. Hann átti sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja frá 1919 til ársins 1938 og var um hríð forseti bæjarstjórnar. Hann var einn af frumkvöðlunum að stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja, átti sæti í stjórn þess og var framkvæmdastjóri þess, meðan hann átti heimili í Vestmannaeyjum. Lengi var hann formaður Lifrarsamlags Vestmannaeyja, var í stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda frá stofnun þess og sat í síldarútvegsnefnd um skeið. Hann átti sæti í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum 1931–1932, í landsbankanefnd 1938–1944, og var margsinnis á tímabilinu 1931–1939 sendur af hálfu ríkisstj. til verzlunarsamninga við Þýzkaland. Þingmaður Vestmanneyinga var hann á árunum 1924–1959, sat á 43 þingum alls. Hann var forseti efri deildar á sumarþinginu 1942 og forseti neðri deildar á þinginu 1942–1943. Á árunum 1944–1947 átti hann sæti í nýbyggingarráði og gegndi þar formannsstörfum. Fjármála- og sjávarútvegsmálaráðherra var hann 1947–1949 og sjávarútvegsmálaráðherra 1949–1950. Árið 1950 var hann kjörinn einn þriggja fulltrúa Íslands á þingi Evrópuráðs, átti þar sæti til æviloka og var á heimleið af fundi þess, er hann lézt. Hann var framkvæmdastjóri Samlags skreiðarframleiðenda frá stofnun þess 1953 til ársloka 1960.

Jóhann Þ. Jósefsson naut ekki annarrar skólamenntunar en barnafræðslu, en hann aflaði sér víðtækrar menntunar af sjálfsdáðum, og lagði einkum stund á tungumálanám. Með framúrskarandi ástundun og dugnaði náði hann slíkri leikni í tungumálum, að einsdæmi mun vera um sjálfmenntaðan mann, sem hafði ekki hlotið aðra skólamenntun en frumstig barnafræðslu. Jók hann allar stundir ævi sinnar við þessa kunnáttu með lestri úrvalsbóka, ekki einasta á Norðurlandamálum, heldur og á þýzku, ensku og frönsku, og skaraði á því sviði fram úr öllum samtíðarmönnum sínum óskólagengnum. Kom málakunnátta hans sér jafnan vel, ekki aðeins í viðskiptum við erlenda menn, er hann hafði allt frá æskuárum, heldur í erindrekstri hans erlendis fyrir þjóð sína og í starfi hans í Evrópuráði. Þar átti hann sæti sem einn af forsetum þingsins, stýrði fundum með festu og virðingu og mælti þá jafnan á franska tungu. Var lítilli þjóð mikill sómi og landkynning að slíkum fulltrúa. Hann kunni glögg skil á atvinnumálum þjóðar sinnar, einkum þó sjávarútvegsmálum og viðskiptamálum. Í störfum hans á Alþingi og annars staðar að opinberum málum kom þekking hans að góðu haldi. Á Alþingi vann hann ötullega að umbótum í sjávarútvegsmálum, jafnframt hagsmuna- og framfaramálum kjördæmis síns, og í nýbyggingarráði hafði hann forustu um margs konar framkvæmdir í atvinnumálum Íslendinga. Þekking hans á viðskiptamálum reyndist heilladrjúg í samningagerðum við aðrar þjóðir, og að markaðsmálum sjávarútvegsins vann hann mikið starf í Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda og Samlagi skreiðarframleiðenda. Hann var tillögugóður í mannúðarmálum, hafði sára reynslu af slysum á hafi og í lofti og beitti sér fyrir raunhæfum ráðstöfunum til slysavarna. Samband íslenzkra berklasjúklinga kaus hann einn af fyrstu heiðursfélögum sínum fyrir frábæra baráttu í berklavarnamálum og djúpan skilning á kjörum berklasjúklinga. Mat hann þá viðurkenningu jafnan mikils.

Jóhann Þ. Jósefsson var skörulegur á velli og prúðmenni í framkomu. Hann var laginn samningamaður, ötull málafylgjumaður og lét ekki hlut sinn eftir liggja í umræðum um þau efni, sem voru honum hugfólgin. Hann var þó ekki einungis traustur og öruggur samherji, heldur jafnframt réttsýnn, prúður og rökfastur andstæðingur þeirra, sem áttu ekki samstöðu með honum um lausn vandamála. Hann var vinnusamur og afkastamikill, þótti góður húsbóndi og var reglusamur á öllum sviðum. Síðustu missirin var hann ekki heill heilsu, en gekk að verki, meðan kraftar entust. Við fráfall hans er á bak að sjá heilsteyptum og mikilhæfum athafnamanni og virðulegum og mikilsvirtum fulltrúa, ekki aðeins á Alþingi, heldur á hverjum þeim stað, þar sem hann kom fram fyrir þjóð sína.

Gunnar Ólafsson fæddist 10. febrúar 1864 í Sumarliðabæ í Holtum. Hann varð því 97 ára gamall og hefur náð hæstum aldri þeirra manna, sem átt hafa sæti á Alþingi á tímabilinu frá 1845, varð rúmum mánuði eldri en Páll Melsteð sagnfræðingur, sem andaðist á sama aldursári og Gunnar. Foreldrar Gunnars voru Ólafur bóndi í Sumarliðabæ Þórðarson bónda á Húsum í Holtum Jónssonar og kona hans, Guðlaug Þórðardóttir bónda í Sumarliðabæ Jónssonar. Ólst Gunnar upp hjá foreldrum sínum í hópi margra systkina og var snemma settur til vinnu. Fimmtán ára að aldri fór hann að heiman til sjóróðra og stundaði síðan um árabil sjómennsku á vertíðum og sveitastörf á sumrum. Tvær haustvertíðir stundaði hann skósmíðanám, en veturinn 1888–1889 var hann 2–3 mánuði í kvöldskóla verzlunarmanna og var það allt hans skólanám. Árin 1889–1896 var hann við verzlunarstörf í Reykjavík. 1896 varð hann bókari við Brydesverzlun í Vík í Mýrdal og verzlunarstjóri þar 1899. Er hann bauð sig fram til þingsetu sumarið 1908, varð hann að láta af því starfi og fluttist á næsta ári til Vestmannaeyja og hóf þar verzlunarstörf. í ársbyrjun 1910 hófst félag þeirra Jóhanns Þ. Jósefssonar um verzlun og útgerð, og starfaði Gunnar síðan við þann atvinnurekstur fram á elliár.

Gunnari Ólafssyni voru falin ýmis trúnaðarstörf. Í Skaftafellssýslu var hann m.a. hreppsnefndaroddviti og sýslunefndarmaður, og í Vestmannaeyjum átti hann sæti í sýslunefnd og hafnarnefnd og gegndi þar sýslumannsstörfum í fjarvist sýslumanns. Í Vestmannaeyjum tók hann einnig þátt í margs konar félagsskap um atvinnurekstur. Hann var einn hinna mörgu nýju alþingismanna eftir kosningarnar sumarið 1908 og sat á þingi fyrir Vestur-Skaftfellinga 1909 og 1911, en gaf þá ekki kost á sér til lengri þingsetu. Á Alþingi 1926 tók hann sæti sem landskjörinn þingmaður eftir fráfall Hjartar Snorrasonar. Alls sat hann því á þremur þingum.

Gunnar Ólafsson var ungur settur til vinnu og reyndist dugandi verkmaður, enda þrekmenni. Hann átti lítinn kost skólagöngu, en hvarf um hálfþrítugt að verzlunarstörfum, og þau urðu ævistarf hans, sem hann rækti jafnan vel. Hann var mikill að vallarsýn, traustur í viðskiptum, hagsýnn og einbeittur. Hann afsalaði sér starfi, sem hann undi þó vel, frekar en hvika frá þeirri stefnu, sem hann hafði markað sér. Hann var ómyrkur í máli, sjálfstæður í skoðunum sínum og ódeigur að berjast fyrir þeim. Hann var vel ritfær og hélt jafnan fast á málstað sínum í rökræðum. Æviminningar sínar samdi hann, og er þar mörgum fróðleik um samtíð hans bjargað frá gleymsku. Við fráfall hans er lokið löngu ævistarfi mikils athafnamanns, og með honum er genginn óvenjulegur og sterkur persónuleiki.

Angantýr Guðjónsson fæddist í Reykjavík 22. maí 1917 og var því 44 ára, þegar hann andaðist. Foreldrar hans voru Guðjón fisksali í Reykjavík Jónsson tómthúsmanns í Arnakoti á Álftanesi Jónssonar og kona hans, Málhildur Þórðardóttir bónda í Ormskoti í Fljótshlíð Ívarssonar.

Æviferill Angantýs Guðjónssonar var hvorki langur né fjölbreyttur. Hann átti heimili í Reykjavík allan aldur sinn, hóf ungur störf hjá Reykjavíkurbæ og vann þar til æviloka, hafði verkstjórn með höndum síðustu árin. Hann var vinsæll meðal samstarfsmanna sinna og greiðvikinn þeim, sem til hans leituðu. Stefna hans í stjórnmálum var eindregin, og hreinskilinn var hann um skoðanir sínar. Hann var hlédrægur, en komst ekki hjá trúnaðarstörfum í flokki sínum, og sérhvert verkefni, sem hann tók að sér að leysa, vann hann af alúð. Á Alþingi tók hann sæti sem varaþingmaður vorið 1958. Hann mun hafa átt við vanheilsu að stríða um nokkurt skeið, en nú er hann fallinn frá fyrir aldur fram.

Ásgeir Sigurðsson fæddist 28. nóvember 1894 í Gerðiskoti í Sandvíkurhreppi í Arnessýslu og skorti því rúma tvo mánuði á 67 ára aldur, þegar hann féll frá. Foreldrar hans voru Sigurður bóndi þar og víðar austanfjalls, síðar fasteignasali í Reykjavík, Þorsteinsson bónda á Flóagafli Guðmundssonar og kona hans, Ingibjörg Þorkelsdóttir í Óseyrarnesi í Flóa Jónssonar.

Ásgeir Sigurðsson ólst upp hjá foreldrum sínum austanfjalls og var ungur settur til vinnu, ýmist í sveit eða við sjó. Árið 1910 fluttist hann með foreldrum sínum til Reykjavíkur og hóf sjómennsku, sem hann stundaði jafnan upp frá því. Fyrstu árin vann hann hásetastörf, en 1914 lauk hann farmannsprófi við stýrimannaskólann og 1917 réðst hann stýrimaður til Eimskipafélags Íslands. Hjá Eimskipafélaginu starfaði hann um 12 ára skeið. Seint á árinu 1929 var hann ráðinn til Skipaútgerðar ríkisins, og var hann síðan skipstjóri á skipum þeirrar útgerðar til æviloka.

Ævistarf Ásgeirs Sigurðssonar var sjómennska, lengst af skipstjórn í strandferðum við Ísland. Á fyrstu skipstjórnarárum hans voru siglingaskilyrði við strendur landsins allt önnur og lakari en nú, er tækniþróun síðustu áratuga hefur mildað erfiðleikana í baráttu við storma og myrkur. Var þá engum meðalmanni hent að stjórna skipi við strendur Íslands, hvernig sem viðraði, og halda þó settri áætlun um ferðir. En í þessu starfi sínu reyndist Ásgeir jafnan hinn traustasti stjórnandi, enda gerðist hann þaulkunnugur öllum siglingaleiðum umhverfis landið. Úr hverri raun kom hann heill á húfi og reyndist farsæll í hvívetna. Á styrjaldarárunum síðustu stjórnaði hann skipi sínu giftusamlega í hættuför til að sækja Íslendinga, sem tepptir voru erlendis. Í stopulum tómstundum milli skyldustarfa á sjó vann hann mikið starf að málum stéttar sinnar. Hann var formaður Skipstjórafélags Íslands 1936–1957 og gerðist hvatamaður að stofnun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og var forseti þeirra samtaka frá stofnun þeirra 1937 til dánardags. Í félögum þessum og á öðrum vettvangi hafði hann mikil afskipti af málefnum sjómannastéttarinnar, barðist fyrir menningar- og öryggismálum hennar og hvers konar hagsmunamálum öðrum. Hann átti sæti sem varaþingmaður á þremur þingum á árunum 1956–1958 og beitti sér þar m.a. fyrir umbótum í hafnarmálum. Sem forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands átti hann frá 1940 sæti í nefnd til að gera tillögur og áætlun um fjárveitingar úr ríkissjóði til vitamála.

Ásgeir Sigurðsson var glæsilegur á velli og stórbrotinn í lund. Persónuleiki hans var slíkur, að honum veittist létt að halda uppi stjórn og reglu á skipum sínum. Virðuleg framkoma hans og prúðmennska í öllum háttum gerðu hann að ákjósanlegum leiðtoga áhafnar og farþega í sæförum. Í Noregsför þeirri, sem átti að verða og varð síðasta skipstjórnarför hans, reyndi mjög á þrek hans, en hann hlífði sér ekki, þegar starfs hans þurfti við. Skipi sínu kom hann heilu í höfn sem jafnan áður. Nokkru síðar bar andlát hans brátt að, og á Íslenzka þjóðin þar á bak að sjá traustum forvígismanni einnar mikilvægustu stéttar þjóðfélagsins.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu þeirra fjögurra manna, sem ég nú hef minnzt, virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]